​ÍTM-íslensk vasaorðabók

​ÍTM-íslensk vasaorðabók

Nýsköpunar sjóður námsmanna í umsjá Rannís styrkti tvo nemendur í táknmálsfræði við HÍ í tvo mannmánuði að vinna að verkefninu ÍTM-íslensk vasaorðabók handa foreldrum táknmálstalandi barna á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sumarið 2020.

Markmið verkefnisins er að sjá foreldrum táknmálstalandi barna fyrir námsgögnum í íslensku táknmáli (ÍTM), og aðstoða alla þá sem hafa áhuga, að taka sín fyrstu skref í ÍTM. Bækurnar er tilvalið að skoða með barninu, enda var mikið lagt upp úr því að þær væru barnvænar. Stærsti þáttur verkefnisins fólst í hönnun og teikningu á persónum, sem var í höndum Bryns Nóels Francis. Einnig voru lýsingar á táknum búnar til með samstarfi Jónu KristínarErlendsdóttur og leiðbeinanda, Nedelinu Ivanovu. Táknmálsvasaorðabækurnar eru þær fyrstu sinnar gerðar fyrir íslenskt táknmál þar sem þær eru tvímála orðabækur með ÍTM sem viðfangsmál og íslenska er markmálið.

Uppsetning bókanna er að stórum hluta byggð á nýsjálensku vasaorðabókunum Let‘s Talk (Deaf Aotearoa, 2019), en að sjálfsögðu er margt sem var ólíkt.

Hver vasaorðabók inniheldur 25 tákn í þremur þemum: matur, fyrstu tákn barns og fyrstu tákn fjölskyldunnar. Með hverju tákni fylgir jafnheiti tákns á íslensku, textalýsing sem útskýrir myndun táknsins, teikning sem sýnir hvernig táknið er myndað og mynd af fyrirbærinu sem táknið stendur fyrir. Því fylgir einnig handform táknsins og QR-kóði sem hægt er að skanna með snjallsíma, en þá kemur upp myndband af SignWiki sem sýnir hvernig táknið er myndað. Þetta var ekki gert í þeim orðabókum sem stuðst var við í verkefninu, og er því ákveðin nýjung. Röðun tákna eftir handformsrófsröð er einnig nýjung.

Þemað í vasaorðabókunum eru blóm og fræ. Hugmyndin á bakvið Fræ er sú að táknarar séu eins og garðyrkjumenn sem sá fræjum. Fræin eru áhugi fólks á ÍTM og því meira sem táknmálstalandi fólk stendur á bak við ÍTM og sýnir það í jákvæðu ljósi, því fleiri fræ eru gróðursett.Vasaorðabækurnar virka því eins og fræ sem sáir áhuga og jákvæðni í garð ÍTM.

Jóna Kristín Erlendsdóttir

Bryn Nóel Francis

Nedelina Ivanova

Grein rituð þann 23.10.2020