Tína fer í frí

Tína fer í frí

Nýsköpunar sjóður námsmanna í umsjá Rannís styrkti einn nemanda í táknmálsfræði við HÍ í einn og hálfan mánuð að vinna að verkefninu Tína fer í frí- kennsluefni á íslensku táknmáli til að kenna erlendum heyrnarlausum börnum að lesa íslensku og til að kenna íslenskt táknmál á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í samstarfi við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sumarið 2020.

Vinna námsmanns er hluti af stærra verkefni, samstarfsverkefnis um kennslu íslensks tal- og táknmáls í gegnum LARA (Learning and Reading Assistant). LARA er opinn hugbúnaður og býður upp á að vinna gagnvirkt með texta til þýðinga, en einnig er hægt að taka upp myndbönd og hljóð. Markmiðin voru: Í fyrsta lagi að styðja döff erlend börn að læra að lesa íslensku, í öðru lagi að sanna gildi hugmyndarinnar að táknmál gætu verið hluti af námsefni í LARA. Þriðja markmiðið kom frá námsmanninum sjálfum þar sem hann lagði til að nota LARA til að kenna ÍTM. LARA hugbúnaðurinn var hannaður með það í huga að kenna tungumál, en táknmál hafði aldrei verið prófað fyrr en nú. Í raun er ekkert, skv. fagstjóra rannsókna á SHH, sem bendir til að þetta hafi verið gert í heiminum áður á svo stórum skala, en á vef SignWiki (is.signwiki.org) er hægt að nálgast einstaka setningar sem hafa verið umritaðar en í LARA er námið mun gagnvirkara.

Námsmaður hafði aðstöðu á Stofnun Árna Magnússonar og á Samskiptamiðstöð heyrnarlausa og heyrnarskertra (SHH). Á SHH hafði námsmaður aðgang að fagfólki (táknmálstúlkum, fólki sem hefur táknmál að móðurmáli og fræðimönnum) sem leiðbeindu námsmanni við þýðingar og umritun.

Vinna námsmanns fólst í að þýða barnabókina „Tína fer í frí“ yfir á íslenskt táknmál Námsmaður þýddi bókina og tók upp á myndband, bæði heilar setningar og einstök tákn. Hluti táknmálstextans var umritaður í þeim. Námsmaður umritaði táknin en það voru gerðar tvær útfærslur af umritun, ein notendavænni og önnur sem sýnir málfræðiupplýsingar. Það var gert til þess yfirþyrma ekki notandann, en nákvæmari glósun birtist í glugga til hliðar á skjánum. Notandi getur sveimað yfir glósurnar með músarbendlinum og þá birtist gluggi með þýðingunni á ensku, en glósurnar eru nú þegar á íslensku svo að frekari þýðing á þeim var óþörf.

Niðurstaðan er að táknmál eiga sér sess í kennslu á netinu í gegnum hugbúnað eins og LARA.

Hér er hlekkurinn fyrir „Tína fer í frí“ á ÍTM: https://www.issco.unige.ch/en/research/projects/callector/tina_signedvocabpages/_hyperlinked_text_.html

Sigurður Nóel Vigfússon

Nedelina Ivanova

Grein rituð þann 29.10.2020