Kennsla

Í 3. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 segir að íslenskt táknmál sé fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja. Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.

Kennslu í íslensku táknmáli er ætlað að stuðla að færni og almennri táknmálsþekkingu meðal þeirra sem nota táknmál til daglegra samskipta og aðila sem veita þeim þjónustu, þannig að samskipti þeirra verði svo auðveld og árangursrík sem kostur er. Reynt er að mæta mismunandi þörfum fólks með t.d. einstaklingskennslu fyrir fólk með skerta heyrn, snertitáknmálskennslu fyrir fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og sérsniðnum námskeiðum fyrir fjölskyldur og starfsfólk sem notar íslenskt táknmál í starfi sínu.

Einnig eru haldin námskeið í íslensku táknmáli fyrir almenning á stofnuninni og skólar geta óskað eftir kennslu í íslensku táknmáli fyrir öll skólastig. Innan leik- grunn- og framhaldsskóla eru kennd stök námskeið og öll færninámskeið innan táknmálsfræði HÍ eru kennd af starfsfólki SHH.

Nánari upplýsingar veitir sviðsstjóri táknmálssviðs, taknmalssvid[hjá]shh.is