Íslenskt táknmál

Íslenska táknmálið er eitt af táknmálum heimsins en táknmál eru ekki alþjóðleg heldur eru þau sjálfsprottin mál sem verða til í samskiptum fólks sem er heyrnarlaust eða döff fólks. Um 140 táknmál eru skráð á Ethnologue, sem heldur skrá yfir tungumál heimsins. Íslenska táknmálið er eina hefðbundna minnihlutamálið hér á landi og um 300 manns líta á það sem sitt móðurmál. Miklu fleiri nota þó íslenskt táknmál í daglegu lífi s.s. fjölskyldur döff fólks, starfssfólk sem vinnur í táknmálssamfélaginu, vinir og vandamenn. Táknmál byggja á táknum sem mynduð eru með hreyfingum handa, höfuðs og líkama, svipbrigðum, munn- og augnhreyfingum og eru skynjuð í gegnum sjónina.

Flestir heyrnarlausir einstaklingar nota táknmál í daglegu lífi og margir heyrnarskertir nota það við ýmsar aðstæður. Döff fólk og heyrnarskert notfærir sér þjónustu táknmálstúlka til samskipta við þá sem ekki kunna íslenskt táknmál. Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 segir í 13. gr. að íslenskt táknmál sé jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og óheimilt sé að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota.

Þá segir í 5. gr. að íslenska ríkið og sveitarfélög stuðli að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðja að öðru leyti við menningu, menntun og fræðslu fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda.