Um SHH

Meginhlutverk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra er að stuðla að því að fólk sem reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta geti sótt þjónustu, sem veitt er í þjóðfélaginu, á grundvelli íslensks táknmáls. Þetta gerir stofnunin með rannsóknum á íslensku táknmáli, kennslu íslensks táknmáls, mati á færni í íslensku táknmáli, námsefnisgerð á íslensku táknmáli, framleiðslu menningarefnis á íslensku táknmáli og túlkaþjónustu á milli íslensks táknmáls og íslensku.

Samskiptamiðstöðin er þekkingar- og þjónustumiðstöð fyrir íslenska táknmálssamfélagið. Starf stofnunarinnar skal sérstaklega nýtast þeim sem nota íslenskt táknmál til daglegra samskipta við aðra. Sérstök áhersla skal lögð á þjónustu við börn á máltökualdri og nemendur á öllum skólastigum. Samskiptamiðstöð hefur forystu í sérhæfðri þjónustu sem stuðlar að þátttöku fólks sem reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta. Á Samskiptamiðstöð er sköpuð ný þekking á starfssviði stofnunarinnar, þekkingu er safnað, hún er þróuð og henni er miðlað.

Unnið er að rannsóknum á íslensku táknmáli og samskiptum á íslensku táknmáli í samvinnu við Háskóla Íslands og erlenda fræðimenn. Fræðasviðin eru málfræði, máltökufræði og mannfræði. Þá er unnið að varðveislu íslensks táknmáls og söfnun og skráningu málheildar íslenska táknmálsins til rannsókna.

Kennsla íslensks táknmáls fer fram á öllum stigum innan skólakerfisins. Innan leik- grunn- og framhaldsskóla eru kennd stök námskeið og öll færninámskeið innan táknmálsfræði HÍ eru kennd af starfsfólki SHH. Einnig sér stofnunin um fræðilega kennslu í túlkanámi og verklega þjálfun túlkanema við HÍ. Þá er boðið upp á kvöldnámskeið fyrir almenning á stofnuninni, helgarnámskeið fyrir fjölskyldur döff barna og einstaklings- og hópakennslu fyrir heyrnarlaus og heyrnarskert börn og fullorðna.

Á stofnuninni er unnið að menningarefni fyrir börn á máltökualdri, námsefnisgerð fyrir kennslu stofnunarinnar í íslensku táknmáli, ýmsum þýðingum frá íslensku yfir á íslenskt táknmál, söfnun tákna og táknasambanda í orðabók (signwiki).

Túlkaþjónusta á milli íslensks táknmáls og íslensku er veitt frá stofnuninni. Vinna túlka fer fram þar sem þjónusta samfélagsins er veitt s.s. í skólum eða á heilbrigðisstofnunum, fundum eða þar sem döff fólk sækir þjónustu eða á samskipti við fólk sem reiðir sig á íslensku til samskipta.

Þá veitir Samskiptamiðstöð þeim sem til hennar leita aðra þjónustu sem tengist samskiptum á íslensku táknmmáli og stuðlar að þátttöku döff fólks í íslensku samfélagi.

Hugmyndafræði að baki starfseminni

Starfsemi Samskiptamiðstöðvar miðar að því að döff fólk geti tekið fullan þátt í íslensku samfélagi. Til þess að döff fólk geti tekið sem ríkastan þátt í samfélaginu er starfsfólk stofnunarinnar sveigjanlegt, umburðarlynt og leggur sig fram um að bregðast við og aðlagast breyttum aðstæðum og verkefnum. Hollusta ríkir innbyrðis á milli starfsfólks og út fyrir stofnunina gagnvart henni. Eðli starfsins vegna ber að meðhöndla allar upplýsingar, skjöl og gögn sem starfsfólk hefur aðgang að í starfi sínu af fyllsta trúnaði. Trúnaður þessi gildir alla ævi. Á vinnustaðnum virðum við rétt allra til fullrar þátttöku og lítum á okkur sem fyrirmynd um hvernig á að byggja upp samvinnu og samveru í flóknu málsamfélagi. Til þess að viðhalda íslensku táknmálssamfélagi á vinnustaðnum er alltaf starfandi fólk á SHH sem lítur á íslenskt táknmál sem sitt móðurmál. Allir starfsmenn tala því íslenskt táknmál í vinnunni.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra
Grensásvegi 9
108 Reykjavík
Sími: 562 7702

Gsm: 896 7701 (sms)

Túlkaþjónusta: 562 7738


Neyðarþjónusta túlka er á kvöldin og um helgar í síma 895-7701
Netfang: shh@shh.is
Vefsíða: www.shh.is